Tónheilun

Tími í djúpslökun með tónheilun

Hvernig fer tónheilun fram?

Tími í tónheilun fer þannig fram að þú liggur á þykkri jógadýnu, með teppi og púða. (Það er allt á staðnum.) Best er að vera í þægilegum fötum, sem þrengja ekki að, og sokkum, til að vera nógu hlýtt. Hver tími er yfirleitt 50-60 mínútur.

Mest slökun næst í liggjandi stöðu en það er líka í boði að hafa sitjandi viðburð, til dæmis fyrir vinnustaði eða hópa.

Hvað er gert?

Tíminn byrjar á öndunaræfingum og hugleiðslu til að kyrra hugann og ná góðri slökun. Síðan er spilað á söngskálar meirihluta tímans. Hljóðin eru róandi og hjálpa þér að slaka vel á. Þau ná aldrei skaðlegum styrk. Oft eru önnur hljóðfæri notuð með, eins og bjölluhljómur eða sjávarhljóð, sem blandast þá mjúklega saman við tóna söngskálanna.

Við hverju má búast?

Djúpslökun með tónheilun getur dregið úr streitu, ýtt undir vellíðan og bætt svefn og einbeitingu. Markmiðið með meðferðinni er að ná djúpri slökun. Oftast upplifir fólk mikinn frið og ró. Fólk nefnir einnig oft hvað tíminn er fljótur að líða.

Leiðbeinandi er Berglind Baldursdóttir. Tóndæmi og myndir eru á Instagram og Facebook.

Tónheilun og hugleiðsla

eftir Berglindi Baldursdóttur

Þessi grein birtist fyrst á heimasíðu Ljóssins þann 16. apríl 2020.

Hvað er tónheilun?

Tónheilun er frekar nýtt fyrirbrigði hér á landi en margar jógastöðvar bjóða upp á þannig. Um er að ræða nokkurs konar hljóðbylgjumeðferð sem á að ýta undir slökun og vellíðan. Tónarnir eru framkallaðir með því að „spila” á sérstakar skálar úr stáli eða kristal með þar til gerðu áhaldi og stundum er gong líka notað. Þessar skálar eru kallaðar söngskálar og stálskálarnar tíbetskálar.

Djúpslökun

Vinsældir tónheilunar fara sívaxandi vegna þess að fólk getur náð djúpslökun á einfaldan hátt, án þess að þurfa að læra einhverja tækni til þess. Þetta getur því verið mjög góð aðferð til að draga úr streitu og kvíða, bæta svefn eða ná góðri slökun, sérstaklega þegar önnur úrræði eru ekki í boði. Til að finna tónheilun á netinu er til dæmis leitað að „sound healing” eða „singing bowls” á YouTube og Spotify.

Hugleiðsla

Tónheilun er oft notuð samhliða hugleiðslu. Fyrir ykkur sem hafið áhuga á að læra hugleiðslu er hægt að prófa sig áfram með því að koma sér þægilega fyrir og einbeita sér bara að því að anda inn og út. Ekki hafa áhyggjur af því að þurfa að tæma hugann, þar sem það er ekki á allra færi. Leyfið hugsunum að koma og fara; í stað þess að reyna að tæma hugann er einfaldlega hægt að sjá hugsanir fyrir sér sem ský sem svífur hjá. Fyrir byrjendur í hugleiðslu getur það bara valdið streitu og pirringi að reyna að hugsa ekki, svo þess vegna er gott að byrja á einhverju einföldu eins og að hlusta á andardráttinn. Það er líka hægt að hlusta á tónheilun, til dæmis ef ykkur langar að útiloka bakgrunnshljóð sem trufla.

Sa-Ta-Na-Ma

Það er líka hægt að hlusta á hugleiðslu þar sem leiðbeinandi leiðir mann áfram. Stundum eru skálarnar notaðar með til að hjálpa til við að kyrra hugann. Það eru þó nokkur íslensk myndbönd á YouTube með hugleiðslu. Ein vinsæl hugleiðsla er Sa-Ta-Na-Ma en rannsóknir hafa sýnt fram á að hún hefur lífeðlisleg áhrif á heilann. Sú hugleiðsla er blanda af möntru og fingrahreyfingum. Þær er hægt að sjá á YouTube, í myndbandinu Kirtan Kriya Meditation með Nina Mongendre.

Kristalsskálar

Í öðru YouTube-myndbandi er spilað á kristalsskálar í nokkrum stærðum til að fá fjölbreytta tóna. Hljómgæði þurfa að vera jafngóð og þegar hlustað er á tónlist en það er misjafnt hversu vel tónarnir koma út þegar hlustað er með heyrnartólum.

Betra er að nota hátalara til að hljómurinn í myndbandinu fái að njóta sín: Sound Healing with Crystal Bowls – Sound Bath by Michelle Berc. Til að prófa hvernig tónheilun virkar á ykkur er nóg að leggjast niður og loka augunum, meðan hlustað er á myndbandið. Athugið að börn og gæludýr vilja oft líka vera með!

Broshugleiðslan

Ég skora líka á ykkur að prófa hugleiðsluna sem er í myndinni Eat, Pray, Love (Borða, biðja, elska) en hún er svona:

  • Brostu með munninum,
  • brostu með huganum
  • og brostu með lifrinni.

Prófið þetta í tíu mínútur á dag og sjáið hvort það verða einhverjar breytingar á líðan ykkar eða orku.

Námskeið í tónheilun

Af og til eru haldin námskeið í tónheilun. Þar er kennt hvernig á að spila á kristalsskálar og hvernig á að byggja upp tíma í djúpslökun. Hér eru nánari upplýsingar um námskeið. Námskeiðin eru ætluð jógakennurum og öðrum meðferðaraðilum sem vilja bæta tónheilun við sitt starf.

Kennt er á hljóðfærin sem sjást á myndinni. Hljóðfærin eru kristalsskálar (söngskálar) í ýmsum stærðum og tóntegundum. Líka Koshi vindhörpur, munkabjöllur, kalimba þumlapíanó og sjávartromma.

Scroll to Top