Áður en við urðum þín
Höfundur Lisa Wingate
Memphis, 1939. — Hin tólf ára gamla Rill Foss og fjögur yngri systkini hennar lifa ævintýralegu lífi um borð í húsbáti foreldra sinna á Mississippi-ánni. En þegar faðir þeirra fer í flýti með móður þeirra á sjúkrahús eitt óveðurskvöld, þarf Rill að vera eftir og passa systkini sín — allt þar til ógnvekjandi menn mæta á staðinn. Börnunum er kippt burt frá öllu sem þau þekkja, komið fyrir á barnavistheimili og talin trú um að þau muni bráðum hitta foreldra sína á ný. En fljótlega átta þau sig á bitrum sannleikanum.
Aiken, Suður-Karólínu, nútíminn. — Avery Stafford er fædd inn í volduga og ríka fjölskyldu og virðist hafa allt sem hugurinn girnist; farsælan frama sem saksóknari, myndarlegan unnusta og væntanlegt brúðkaup. En þegar Avery snýr aftur heim til að hjálpa föður sínum að ná betri heilsu, verður óvæntur fundur til þess að hún situr eftir með óþægilegar spurningar og finnur sig knúna til að skoða fjölskyldusögu sína betur.
Í þessari áhrifamiklu skáldsögu verður átakanlegt óréttlæti til þess að líf tveggja fjölskyldna breytist til frambúðar. Ógleymanleg saga um fjölskyldur, systur og leyndarmál.
Byggð á sönnum atburðum.
Forsagan
Bókin er byggð á einu stærsta hneykslismáli sem upp hefur komið í Bandaríkjunum, þar sem forstöðukona ættleiðingarstofnunar rændi börnum frá fátækum foreldrum og seldi þau til ættleiðingar til ríkra fjölskyldna víðs vegar um Bandaríkin.
Frásögn Lisu Wingate er spennandi, átakanleg en að lokum upplífgandi og hún minnir okkur á, að jafnvel þótt leiðir okkar liggi til margra ólíkra staða, gleymir hjartað aldrei hvaðan það kom.
#Sannsögulegar skáldsögur #barnaheimili #Amerískar bókmenntir
Litlir eldar alls staðar
Höfundur Celeste Ng
Ein af 10 bestu skáldsögum áratugarins – TIME
Í Shaker-hæðum, rólegu og framsæknu úthverfi Cleveland, er allt ítarlega planað — frá skipulagi veganna, til litanna á húsunum, til farsælla lífa sem íbúar þess munu halda áfram að lifa. Og enginn er meiri holdgervingur þess anda en Elena Richardson en hún hefur það að leiðarljósi að fylgja reglunum. Þar til Mia Warren, leyndardómsfull listakona og einstæð móðir, flytur í þessa fullkomnu kúlu með unglingsdóttur sinni Pearl og leigir hús af Richardson-fjölskyldunni.
Fljótlega verða Mia og Pearl meira en leigjendur; öll fjögur börn Richardsonhjónanna dragast að mæðgunum. En Mia á sér dularfulla fortíð og virðingarleysi hennar fyrir reglum ógnar þessu vandlega skipulagða samfélagi.
Þegar vinir Richardson-fjölskyldunnar reyna að ættleiða kínverskt-amerískt barn, gýs upp forræðisdeila sem klýfur bæinn í tvennt og verður til þess að Mia og frú Richardson verða andstæðingar. Frú Richardson, sem finnst Mia og viðhorf hennar grunsamleg, verður staðráðin í að afhjúpa leyndarmálin í fortíð Miu. En þráhyggja hennar mun hafa óvæntar og skelfilegar afleiðingar fyrir hennar eigin fjölskyldu — og Miu.
Bókin heitir á frummálinu Little Fires Everywhere og er eftir bandaríska rithöfundinn Celeste Ng (borið fram ing).
Bókin var valin besta skáldsaga ársins 2017 í lesendavali Goodreads og Amazon, og ein af 10 bestu skáldsögum áratugarins hjá TIME.
#fjölskyldur #unglingar #foreldrar #ljósmyndun #listakona