Sögusviðið: Wirrawee og Víti
Spennusaga fyrir unglinga
Á morgun, þegar stríðið hófst
Á morgun-serían #1
Höfundur John Marsden
Ellie og vinir hennar ákveða að fara í útilegu í óbyggðum Ástralíu, djúpt ofan í gili sem kallast Víti. Þegar þau snúa aftur heim viku seinna komast þau að því að óvinaher hefur ráðist inn í landið og fjölskyldur þeirra eru horfnar. Vinahópurinn þarf að taka erfiða ákvörðun: Þau geta flúið aftur upp í fjöllin eða gefist upp. Eða barist á móti.
Spennusaga fyrir 13-18 ára unglinga og ungmenni.
Fæst í öllum helstu bókabúðum.
Í skjóli nætur
Á morgun-serían #2
Höfundur John Marsden
Einhvers staðar í óbyggðunum eru Ellie og vinir hennar í felum. Það hefur verið ráðist inn í landið þeirra. Fjölskyldur þeirra og vinir eru fangar. Veröld þeirra hefur umturnast á einni nóttu. Og nú hefur vinahópurinn tvístrast. Tvö þeirra hafa lent í höndum óvinanna.
Nokkur úr hópnum fara í könnunarleiðangur og finna annan uppreisnarflokk sem er að berjast við óvinina – en hver eru þau og er þeim treystandi?
Í skjóli nætur er æsispennandi framhald sögunnar Á morgun, þegar stríðið hófst, um hóp unglinga sem er fyrirvaralaust staddur á miðju stríðssvæði. Þau munu aldrei gefast upp. Ekki átakalaust. En stundum er hugrekkið of dýru verði keypt.
Fæst í öllum helstu bókabúðum.
Heljarfrost
Á morgun-serían #3
Höfundur John Marsden
Þriðja bókin í bókaflokknum er í þýðingu. (Lítil sala á barna- og unglingabókum hefur því miður bitnað á útgáfu bókaflokksins.)
Heljarfrost er beint framhald sögunnar Í skjóli nætur.
Vinahópurinn hefur nú verið á átakasvæði í stöðugri hættu í sex mánuði.
Í þriðju bókinni heldur spennan áfram að magnast. Ellie og vinir hennar eru ekki lengur í vörn, nú svara þau í sömu mynt. Áætlun þeirra? Að gera árás á óvinaherinn, ekki bara á landi heldur líka á sjó. Ef þeim á að takast að eyðileggja gríðarstóra flutningaskipið í Cobblersflóa, er nauðsynlegt fyrir þau að fara mjög leynt. Annars gæti stærri ógn vofað yfir þeim; að enda í fangelsi.
Um bókaflokkinn
Hópur unglinga er í útilegu í óbyggðum Ástralíu þegar ráðist er inn í landið. Þegar þau koma aftur heim eru fjölskyldur þeirra og vinir horfin. Söguhetjurnar ákveða að hjálpa þeim og finna upp á ýmsum aðferðum til að berjast á móti innrásarhernum.
Sagan gefur innsýn í lífið á hernumdu svæði, þar sem allar daglegar venjur eru foknar út í veður og vind. Í gegnum sögumanninn, Ellie, fær lesandinn að upplifa óttann sem þau upplifa, en líka þrautseigjuna sem birtist í öllum þeim hugmyndum sem vinahópurinn fær til að leggja sitt af mörkum í þessu óvænta stríði. Vináttan er sterk og rómantíkin er aldrei langt undan. Sterk persónusköpun höfundar fær lesandann til að hrífast með vinunum og upplifa í gegnum þau hvaða áhrif stríðið hefur á þau.
Um höfundinn
Fáir ástralskir rithöfundar hafa náð jafnmiklum vinsældum og John Marsden, sem er bæði rithöfundur og kennari. Honum fannst mikil þörf vera á bókum sem höfðuðu til unglingsstráka, sem honum fannst ekki ná jafngóðum árangri í lestri og stelpur. Hann ákvað því að skrifa bókaflokkinn Á morgun-serían.
Bækurnar eru gagngert skrifaðar með það í huga að auka lesskilning, orðaforða og lestraráhuga drengja en henta öllum kynjum. Söguhetjan, Ellie, er jafnframt sterk fyrirmynd stelpna.
Á morgun-serían hefur hlotið fjölmörg verðlaun og er í dag vinsælasti bókaflokkur sem hefur verið skrifaður fyrir unglinga og ungmenni í Ástralíu.